Company Announcements

Fly Play hf.: Aldrei betri sætanýting yfir vetrarmánuð í sögu PLAY og 65% aukning farþega

Source: GlobeNewswire
Fly Play hf.: Aldrei betri sætanýting yfir vetrarmánuð í sögu PLAY og 65% aukning farþega

Flugfélagið PLAY flutti 142.918 farþega í marsmánuði, sem er 65% aukning frá mars í fyrra þegar félagið flutti 86.661 farþega. Sætanýting PLAY í mars 2024 var 88,1% samanborið við 80,6% í mars í fyrra. Sætanýtingin í nýliðnum marsmánuði er sú hæsta yfir vetrarmánuð í sögu PLAY.

Af þeim farþegum sem flugu með PLAY í mars voru 25,6% á leið frá Íslandi, 36,0% voru á leið til Íslands og 38,4% voru tengifarþegar (VIA). Hlutfall farþega sem voru á leið til Íslands og tengifarþega er skýrt merki um að eftirspurn hefur tekið við sér á ný eftir að hafa dvínað á haustmánuðum 2023 vegna ónákvæms fréttaflutnings erlendra miðla af jarðhræringum á Reykjanesskaga.

Stundvísi PLAY í mars var 94%, sem er á meðal þess besta sem fyrirfinnst í flugbransanum.

Eftirspurn eftir sólarlandaáfangastöðum PLAY var mikil í marsmánuði. Um 90% sætanýting var á Alicante, Lissabon, Barcelona og Tenerife. Mikil eftirspurn var einnig eftir borgaráfangastöðum í Evrópu. Um 90% sætanýting var á London, Berlín, París og Kaupmannahöfn og var nærri 90% sætanýting á Dublin og Amsterdam.

Tveir nýir áfangastaðir

PLAY kynnti til leiks tvo nýja áfangastaði í mars, Madeira og Marrakesh. Fyrsta flug PLAY til Marrakesh verður 17 október og verður flogið allt að tvisvar í viku á fimmtudögum og sunnudögum. Þetta verður í fyrsta sinn sem áætlunarflugi er haldið úti á milli Íslands og Afríku. 

Fyrsta flugið til Madeira verður 15 október og verður flogið einu sinni í viku á þriðjudögum.

Einar Örn Ólafsson, forstjóri PLAY:

„Við vorum með ásættanlega sætanýtingu í mars þar sem páskaumferðin jafnaði út neikvæðu áhrifin sem sköpuðust vegna jarðhræringanna undir lok síðasta árs. Háannatíminn um sumarið er framundan og við erum spennt fyrir að setja ný met í rekstri PLAY. Hlutfall þeirra farþega sem fljúga með okkur til Íslands og tengifarþega sýnir það gífurlega góða starf sem hefur verið unnið til að auka vitund neytenda á erlendum mörkuðum um PLAY. Einnig ber að hrósa samstarfsfólki mínu fyrir að hafa náð 94% stundvísi á áætlunarferðum okkar í marsmánuði sem er merki um þá miklu fagmennsku sem býr í starfsliðinu.“


 

Viðhengi