Company Announcements

Síldarvinnslan: Fyrsti ársfjórðungur 2024.

Source: GlobeNewswire
Síldarvinnslan: Fyrsti ársfjórðungur 2024.


  • Ýmsar áskoranir í rekstri.
  • Veiðar á kolmunna gengu vel.
  • Bolfiskskipin öfluðu vel.
  • Loðnubrestur enn eitt árið og mikill samdráttur í veiðum og vinnslu.
  • Óvissa í rekstri Vísis.
  • Einu skipi lagt.

Helstu niðurstöður úr fjárhagsuppgjöri tímabilsins

  • Hagnaður tímabilsins nam 11,3 m USD.
  • Rekstrartekjur tímabilsins námu 81,4 m USD.
  • EBITDA var 19,2 m USD eða 23,6% á tímabilinu.
  • Heildareignir samstæðunnar í lok tímabilsins námu 1.071 m USD og eiginfjárhlutfall var 58,4%.

Rekstur

Tekjur á fyrsta ársfjórðungi námu 81,4 m USD samanborið við 131,5 m USD á sama tímabili í fyrra. Rekstrartekjur drógust saman um 50,1 m USD á milli tímabila eða um 38,1%. Tekjusamdrátturinn skýrist fyrst og fremst af því að enginn loðnukvóti var gefinn út á tímabilinu sem og vegna jarðhræringanna við Grindavík sem hafa haft mikil áhrif á rekstur Vísis ehf.

Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) á tímabilinu var 19,2 m USD eða 23,6% af rekstrartekjum, en var 39,6 m USD og 30,1% af rekstrartekjum á sama tímabili 2023. Samdráttur á milli tímabila nemur því 20,4 m USD.

Hagnaður fyrir tekjuskatt var 14,0 m USD samanborið við 36,4 m USD á fyrsta fjórðungi 2023. Tekjuskattur var 2,7 m USD og hagnaður fyrsta ársfjórðungs 2024 því 11,3 m USD samanborið við 29,5 m USD hagnað fyrsta ársfjórðung 2023.

Efnahagur

Heildareignir námu 1.071,4 m USD í lok mars 2024. Þar af voru fastafjármunir 880,0 m USD og veltufjármunir 191,4 m USD. Í lok árs 2023 námu heildareignir 1.098,9 m USD og þar af voru fastafjármunir 889,3 m USD og veltufjármunir 209,6 m USD. Fastafjármunir minnkuðu því um 9,3 m USD en afskriftir og þýðingarmunur skýra það að mestu leyti. Veltufjármunir minnkuðu um 18,2 m USD, sem skýrist af lækkun á handbæru fé og birgðum.

Fjárhagsstaða félagsins er áfram sterk og nam eigið fé 625,7 m USD. Eiginfjárhlutfall var 58,4% í lok tímabilsins en það var 58,6% í lok árs 2023.

Heildarskuldir og -skuldbindingar félagsins voru 445,6 m USD í lok tímabilsins og lækkuðu um 8,8 m USD frá áramótum. Vaxtaberandi skuldir voru 291,8 m USD í lok tímabilsins og hafa lækkað um 12,9 m USD frá áramótum.

Sjóðstreymi

Handbært fé frá rekstri nam 23,1 m USD á fyrsta ársfjórðungi 2024 en var 24,0 m USD á sama tímabili 2023. Fjárfestingahreyfingar voru neikvæðar um 3,2 m USD og fjármögnunarhreyfingar neikvæðar um 32,4 m USD. Handbært fé í lok tímabilsins nam 68,9 m USD.

Meginniðurstöður í íslenskum krónum á fyrsta ársfjórðungi 2024

Séu niðurstöður rekstrarreiknings tímabilsins reiknaðar í íslenskar krónur á meðalgengi þess (1 USD=137,27 kr.) voru rekstrartekjur 11,2 milljarðar króna. EBITDA nam 2,6 milljörðum króna og tímabilsins var 1,5 milljarður króna. Séu niðurstöður efnahagsreiknings reiknaðar í íslenskar krónur á gengi 31. mars 2024 (1 USD=138,59 kr.) voru eignir samtals 148,5 milljarðar króna, skuldir 61,8 milljarðar króna og eigið fé 86,7 milljarðar króna.

Samþykkt árshlutareiknings

Árshlutauppgjör fyrsta ársfjórðungs 2024 var samþykkt á stjórnarfundi Síldarvinnslunnar hf. hinn 23. maí 2024. Ársreikningurinn er gerður í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS- International Financial Reporting Standards).

Kynningarfundur 23. maí 2024

Rafrænn kynningarfundur fyrir markaðsaðila og fjárfesta verður haldinn á vefstreymi fimmtudaginn 23. maí næstkomandi klukkan 16:00. Streymið verður aðgengilegt á vefsíðu Síldarvinnslunnar https://svn.is/fjarfestar/streymi/. Streymið verður einnig aðgengilegt á streymisrás Síldarvinnslunnar á YouTube https://www.youtube.com/channel/UC-7V1TcKj92J5Mc9OMMcFZQ/videos Þá verður hægt að senda spurningar á netfangið fjarfestir@svn.is og verður reynt að svara þeim á kynningarfundinum eftir fremsta megni.

Frá forstjóra

Loðnubresturinn í vetur vegur þungt í samdrætti fjórðungsins. Eftir nokkur góð ár í loðnu var ekkert veitt í vetur, sem er áfall fyrir fyrirtæki eins og okkar. Á sama tíma hefur ríkt óvissa með rekstur bolfiskeiningar okkar í Grindavík sem enn fremur dregur úr afkomu samanborið við fyrra ár.

Afkomulega hafa þessir þættir valdið miklum samdrætti, en framleiðsluverðmæti loðnuvertíðar fyrir ári síðan nam um 70 miljónum USD. Uppsjávarveiðin dróst því saman um 47.600 tonn, móttaka fiskimjölsverksmiðja um 58.000 tonn, og hráefnismóttaka í fiskiðjuverinu um 15.600 tonn. Það er ljóst að fyrirtæki eins og okkar getur lítið gert til að verja sig þegar svona mikill samdráttur verður í aflaheimildum.

Varnarbarátta hefur verið háð varðandi bolfiskvinnsluna á Reykjanesi. Taka þurfti marga starfsmenn af launaskrá en bætt var í vinnslu í Þýskalandi í dótturfélagi okkar þar, auk þess sem saltfiskvinnslu var komið upp í Helguvík til bráðabirgða. Engin vinnsla var í frystihúsinu í Grindavík en fyrir ári var unnið úr 3.100 tonnum af hráefni. Lítið sem ekkert var unnið í saltfiskvinnslu okkar í Grindavík, en á sama tíma fyrir ári var unnið úr 2.500 tonnum. Búið er að vinna saltfisk úr rúmlega 3.000 tonnum af hráefni á tímabilinu bæði í Helguvík og Cuxhaven, samdrátturinn í landvinnslu Vísis nemur um 2.600 tonnum af hráefni.

Þrátt fyrir áskoranir í rekstri, höfum við unnið að því að hagræða á móti. Þannig var einu skipi lagt um áramót og reiknum við með áframhaldandi hagræðingu á útgerðarsviði. Vinnslunni á Seyðisfirði var lokað og unnið er úr hugmyndum sem geta stutt við samfélagið þar í staðinn. Þessar hagræðingaraðgerðir munu skila sterkari rekstri til lengri tíma.

Í dag er vinnsla í gangi í frystihúsinu og saltfiskvinnslunni í Grindavík. Stjórnendur eru í stöðugum samskiptum við almannavarnaryfirvöld og stjórnvöld á svæðinu og hafa viðbragðsáætlanir og öryggisplön verið yfirfarin og efld enda öryggi starfsmanna í fyrirrúmi. Starfsfólk hefur komið sér fyrir í nágrannasveitarfélögum og er jafnframt unnið í nánu samstarfi við verkalýðsfélagið í Grindavík.

Óvissan með Grindavík gerir það að verkum að við erum að fara yfir skipulag á bolfiskvinnslu til framtíðar og til hvaða ráðstafana sé unnt að grípa til ef ekki er hægt að nýta eignir okkar í Grindavík. Þar á meðal er verið að skoða möguleika á samstarfi við aðra framleiðendur og nýta með því þær fjárfestingar sem eru til staðar í landinu. Það er trú okkar að samkeppnishæfni íslensks sjávarútvegs muni felast í auknu samstarfi á vinnslu- og markaðshliðinni.

Nú ríkir ákveðin eftirvænting eftir ráðgjöf Hafrannsóknarstofnunnar fyrir komandi fiskveiðiár, en við bindum vonir við góðar fréttir af tilteknum stofnum, t.d. íslensku síldinni, á meðan aðrir eru enn í ákveðinni lægð.

Framkvæmdum við fiskimjölsverksmiðjuna er að ljúka og afkastar hún nú um 2.100 tonnum á sólarhring.

Árið fer vel af stað hjá hlutdeildarfélagi okkar Arctic Fish, reksturinn hefur gengið vel, vöxtur hefur verið góður. Starfsleyfi hafa verið endurnýjuð og horfur þar góðar.

Markaðsaðstæður eru almennt góðar á okkar helstu mörkuðum sem hafa verið að styrkjast og jafna sig eftir niðursveiflu síðustu missera. Þannig eru allar uppsjávarbirgðir seldar að frátöldum loðnuhrognum frá síðustu vertíð en gert var ráð fyrir að tæki einhvern tíma að selja þær. Pressa er á mjöl- og lýsismörkuðum vegna mikillar veiði í Suður Ameríku, en þrátt fyrir það hafa í sögulegu samhengi haldist há.

Við reiknum með að byrja makrílveiðar í lok júní og svo síldarvertíð í framhaldinu. Vonir standa til að geta unnið fisk í Grindavík fram að sumarleyfum ef náttúran grípur ekki inn í og svo áfram í haust.

Fjárhagsdagatal
2. ársfjórðungur 2024 – 29. ágúst 2024
3. ársfjórðungur 2024 – 21. nóvember 2024
Ársuppgjör 2024 – 6. mars 2025

Nánari upplýsingar
Gunnþór B. Ingvason, forstjóri

Viðhengi